Aldursforsetinn orðinn 97 ára og er duglegur í heilsuátakinu
Einn elsti Suðurnesjamaðurinn, Gunnar Jónsson, varð 97 ára í síðustu viku en hann hefur stundað heilsurækt í heilsueflingarátaki Janusar undanfarin ár – er þar elstur allra en einn af þeim duglegri.
„Hann stundar heilsueflinguna af krafti; gengur daglega úti á íþróttavellinum í um 30 mínútur og iðkar sínar styrkar- og liðleikaæfingar heima á tímum samkomubannsins. Gunnar hefur verið með okkur frá upphafi heilsueflingar 65+ í Reykjanesbæ.
Við heimsóttum hann í byrjun vikunnar, afhentum honum vikulegan heilsupistil okkar á tímum COVID-19. Hann bauð okkur í bæinn. Á gólfinu er æfingadýna og á veggnum hanga spjöldin með heimaæfingunum í plasti. Í næsta heilsupistli okkar er viðtal við hann ásamt nokkrum öðrum þátttakendum í heilsueflingaraverkefni okkar. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN GUNNAR JÓNSSON,“ segir Janus Guðlaugsson á Facebook-síðu heilsuátaksins.
Víkurfréttir hafa tvívegis rætt við Gunnar í heilsuátakinu. Síðast fyrr í vetur og þá var hann hress að vanda og ræddi meðal annars um það að hann væri eini kallinn sem stundaði danstíma.
Gunnar hefur verið með í heilsueflingarátakinu 65+ í Reykjanesbæ frá upphafi. Janus Guðlaugsson afhenti honum viðurkenningu á síðasta ári fyrir frammistöðuna. Á efstu myndinni er kallinn í salnum hjá Massa í Njarðvík.